„Hefði viljað skora fleiri mörk“

Gylfi í baráttunni við Joe Allen og Jordan Henderson.
Gylfi í baráttunni við Joe Allen og Jordan Henderson. AFP

„Þetta hefur verið tímabil sem ég hef haft mjög gaman af,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Swansea City.

Gylfi hefur skorað fimm mörk í 28 leikjum með velska liðinu í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og sjö alls á tímabilinu og þá hefur hann verið iðinn við að leggja upp mörk fyrir samherja sína. Aðeins Cesc Fábregas og Ángel Di Maria hafa átt fleiri stoðsendingar en Gylfi á tímabilinu.

„Ég hef spilað marga leiki, fleiri en ég hef gert síðan ég var hjá Reading og liðinu hefur vegnað vel,“ segir Gylfi við netmiðilinn Wales Online en þegar fimm umferðir eru eftir af deildinni er Swansea í áttunda sætinu.

„Ég ákvað að koma aftur til Swansea til að spila og ég hef gert það. Ég hef verið heppinn hvað meiðsli varðar og það hefur gengið vel bæði hjá Swansea og íslenska liðinu. Ég er þegar farinn að hlakka til næsta tímabils,“ segir Gylfi Þór, sem verður í eldlínunni gegn Newcastle á St.James Park á morgun.

„Ég hefði kannski viljað skorað fleiri mörk en ég get ekki verið ósáttur því líklega hef ég lagt upp fleiri mörk en ég reiknaði með. En ég setti mér kröfur og þú getur aldrei verið fullkomlega sáttur, ef svo er þá munt þú aldrei bæta þig.

Ég skoraði meira á fyrri hluta tímabilsins og einhverju hluta vegna hafa mörkin ekki orðið mörg sem ég skorað frá því í janáur svo það er eitthvað sem ég þarf að bæta úr fyrir næsta tímabil. Þetta er eitt mitt besta tímabil. Ég er ekki 100% sáttur hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig og þá sérstaklega eftir jólim. Í janúar náðum við ekki að innbyrða eins mörg stig og við hefðum getað gert og það það kom okkur út úr baráttunni um sjöunda sætið,“ sagði Gylfi Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert