Góðmennska Victors vekur athygli í Svíþjóð

Guðlaugur Victor Pálsson gerir það gott í Svíþjóð.
Guðlaugur Victor Pálsson gerir það gott í Svíþjóð. Ljósmynd/Gunnar Elíson

Íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er í sviðsljósi sænska fjölmiðla í dag. Hinn sjö ára gamli Victor Svensson fékk að leiða Guðlaug Victor út á völlinn fyrir leik Helsingsborgs og Norrköping í síðustu viku.

Sá ungi átti erfitt með gang vegna fótbrots sem hann varð fyrir í byrjun árs og tók Guðlaugur Victor drenginn í fangið og hélt honum út á völlinn.

Fyrir helgi birti Guðlaugur Victor síðan myndir af þeim félögum og óskaði drengnum góðs bata. Linda Svensson, móðir sjö ára Victors, skrifaði athugasemd við myndina og þakkaði Guðlaugi Victori fyrir hugulsemina. Þá sagði hún son sinn vera í skýjunum eftir góðmennsku leikmannsins.

Helsingsborgs vann leikinn 3:1 og mætir næst Íslendingaliðinu Sundsvall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert