Verðum að vera raunsæir

Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson mbl.is/Ómar

Rúnar Kristinsson, þjálfari norska knattspyrnuliðsins Lilleström, kveðst ekki vera sérlega undrandi á slæmri byrjun liðsins í norsku úrvalsdeildinni og á von á erfiðu tímabili en lið hans hefur ekki náð að vinna neinn af fyrstu fjórum leikjum sínum.

Lilleström gerði reyndar jafntefli í fyrstu þremur leikjunum en tapaði síðan 0:2 fyrir Stabæk í gær. Liðið er bara með 2 stig þar sem það hóf keppni með eitt mínusstig vegna fjárhagsvandræða. Ekkert lið hefur leikið eins lengi í efstu deild í Noregi og Lilleström sem er þar 41. árið í röð.

„Við misstum marga leikmenn, fjárhagsstaðan er ekki góð, við gátum ekki fengið til okkur reynda leikmenn og vinnum með það sem við höfum. Við eigum von á harðri baráttu,“ sagði Rúnar við VG eftir ósigurinn.

„Kannski ekki botnslag,“ svaraði hann spurningu VG. „Við vonumst eftir því að komast í miðja deildina, í besta falli. Allir þjálfarar og leikmenn vilja komast eins ofarlega og mögulegt er. En við verðum að vera raunsæir. Lilleström hefur verið í miklum mótbyr undanfarn ár, en það vissi ég vel þegar ég tók við starfinu,“ sagði Rúnar en hann tók við liðinu í vetur, með Sigurð Ragnar Eyjólfsson sem aðstoðarþjálfara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert