Arnór og Hulk framherjapar í liði vikunnar

Arnór Smárason í búningi Torpedo.
Arnór Smárason í búningi Torpedo.

Arnór Smárason hefur verið valinn í lið vikunnar í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í annað sinn fyrir frammistöðu sína með Torpedo Moskva.

Arnór skoraði jöfnunarmark Torpedo, 2:2, gegn Rubin Kazan á 89. mínútu í leik liðanna í Moskvu á sunnudaginn, en hann kom inná sem varamaður þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Hinn framherjinn sem valinn var í úrvalsliðið er Hulk, hinn kunni sóknarmaður Zenit Pétursborg og brasilíska landsliðsins en hann er búinn að skora 13 mörk í 25 leikjum fyrir toppliðið í deildinni á tímabilinu.

Arnór var áður valnn í úrvalsliðið eftir fyrsta leik sinn með Torpedo í mars en þá tryggði hann liðinu jafntefli gegn Zenit með glæsilegu marki á lokamínútum leiksins.

Torpedo situr á botni rússnesku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum frá því að komast úr beinu fallsæti þegar fjórum umferðum er ólokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert