Juventus vann Evrópumeistarana

Carlos Tevez fagnar marki sínu í kvöld.
Carlos Tevez fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Juventus hafði betur gegn Real Madrid 2:1 í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Leikið var í Tórínó en annað kvöld mætast Barcelona og Bayern München í hinni viðureign undanúrslitanna. 

Ríkjandi Evrópumeistarar í Real skoruðu því útivallarmark sem gæti reynst dýrmætt þegar uppi verður staðið. Ekki verður þó auðvelt fyrir Spánverjana að leggja Juventus að velli miðað við leikinn í kvöld en ítalska liðið var betri aðilinn á köflum. 

Alvaro Morata kom Juventus yfir á 9. mínútu með marki gegn sínu gamla félagi en Cristiano Ronaldo jafnaði á 27. mínútu. Carlos Tevez skoraði sigurmarkið úr víti á 58. mínútu sem hann fékk sjálfur. 

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90. mín: Leiknum er lokið. Juventus sigraði 2:1. Lokamínúturnar voru nokkuð fjörugar en liðunum tókst ekki að bæta við mörkum. 

80. mín: Staðan er 2:1 fyrir Juventus. Tíu mínútur til leiksloka og Ítalirnir með forystu en Spánverjarnir komnir með dýrmætt útivallarmark. Verði þetta niðurstaðan gæti síðari leikurinn orðið ansi áhugaverður. 

58. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Juventus. Eftir tilviljunarkennda atburðarás þar sem tveir leikmenn Real duttu, þá komst Tevez að markteigshorni vinstra megin. Dani Carvajal braut á honum og dæmd vítaspyrna sem Carlos Tevez skoraði sjálfur úr með skoti í mitt markið. Carvajal fékk gula spjaldið fyrir brotið en hann tók áhættu með því að keyra inn í hliðina á Tevez því færið var að verða þröngt. 

45. mín: Staðan er 1:1. Fyrri hálfleik er lokið. Kólumbíumaðurinn James Rodriguez skallaði í slána á marki Juventus af markteig seint í fyrri hálfleik. Dauðafæri og þar sluppu Ítalirnir sem þó hafa spilað býsna vel í fyrri hálfleik og látið Evrópumeistarana hafa fyrir hlutunum. Real hefur ekki fengið mörg færi en stjörnur liðsins eru hættulegar um leið og þær fá smá svigrúm. 

27. mín: Mark! Staðan er 1:1. Ríkjandi Evrópumeistarar búnir að jafna. Cristiano Ronaldo skallaði boltann yfir marklínuna á 27. mínútu eftir skemmtilega sókn og góða fyrirgjöf frá James Rodriguez. Níunda mark Ronaldo í keppninni á tímabilinu og hans 66. mark í keppninni á ferlinum. 

23. mín: Staðan er 1:0 fyrir Juventus. Ronaldo slapp úr gæslunni um stund og virtist sleppa einn inn fyrir vörnina. Varnarmaður náði þó að þrengja að honum og Ronaldo skaut með vinstri fæti vinstra megin úr teignum. Ágætt færi en skotið misheppnað og fór framhjá stönginni hægra megin. 

9. mín: Mark! Juventus tekur forystuna. Draumabyrjun fyrir Ítalina. Að sjálfsögðu var það fyrrum leikmaður Real Madrid sem skoraði: Alvaro Morata. Leikmaður sem spænski risinn hafði ekki not fyrir. Morata þurfti reyndar ekki að gera mikið meira en að koma boltanum yfir línuna, var réttur maður á réttum stað á réttum tíma en Bjarni Fel sagði gjarnan. Carlos Tevez skapaði usla í vörn Real og skaut föstu skoti hægra megin úr teignum. Casillas varði en Morata náði frákastinu. 

Byrjunarliðin:

Juventus: Buffon, Lichtsteiner, Bonucci, Chiellini, Evra, Marchisio, Pirlo, Sturaro, Vidal, Tevez, Morata. 

Real Madrid: Casillas, Carvajal, Varane, Ramos, Marcelo, Pepe, Kroos, Isco, James, Bale, Ronaldo.

0. mín: Patrice Evra kemur aftur inn í liðið hjá Juventus en lék ekki síðasta leik. 

0.mín: Gareth Bale er í byrjunarliði Real en nokkrar vangaveltur voru um það í aðdraganda leiksins. 

Alvaro Morata og Pepe takast á.
Alvaro Morata og Pepe takast á. AFP
Cristiano Ronaldo á æfingu í Tórínó
Cristiano Ronaldo á æfingu í Tórínó AFP
Snillingurinn Andrea Pirlo stjórnar spilinu hjá Juventus.
Snillingurinn Andrea Pirlo stjórnar spilinu hjá Juventus. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert