Guðmundur Steinn skoraði tvö - Start úr leik

Guðmundur Steinn Hafsteinsson fagnar marki.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson fagnar marki. Árni Sæberg

Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði tvö mörk fyrir Notodden sem vann Jerv í annarri umferð norska bikarsins í dag en lokatölur urðu 3:1.

Jerv komst yfir strax á þriðju mínútu en Notodden jafnaði hálftíma síðar. Guðmundur skoraði svo tvö mörk í síðari hálfleik, strax á 46. mínútu og 61. mínútu og lék allan leikinn.

Óvæntustu úrslit dagsins urðu væntanlega þau að C-deildarliðið Vindbjart sló Íslendingalið Start úr leik með stórsigri, 4:0. Matthías Vilhjálmsson lék allan tímann í fremstu víglínu Start og Guðmundur Kristjánsson spilaði sömuleiðis allan tímann á miðjunni, auk þess sem Ingvar Jónsson stóð í markinu.

Rúnar Kristinsson og lærisveinar hans í Lilleström unnu Eidsvold 2:0 en Finnur Orri Margeirsson, fyrrverandi leikmaður Breiðabliks og FH, lék allan leikinn. Árni Vilhjálmsson var ekki með vegna meiðsla.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn fyrir Rosenborg sem vann stórsigur á Flöya, 6:0 og þá lék Daníel Leó Grétarsson allan leikinn á miðjunni fyrir Álasund sem vann Strindheim 5:2. Aron Elís Þrándarson var ekki í leikmannahópi Álasunds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert