„Barcelona er besta félag í heimi“

Tilfinningaþrungin stund á Nývangi í kvöld.
Tilfinningaþrungin stund á Nývangi í kvöld. AFP

Xavi Hernandez, leikmaður Barcelona á Spáni, lét allar tilfinningar sínar flakka eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Deportivo La Coruna í kvöld, en þetta var síðasti deildarleikur hans fyrir félagið.

Hann staðfesti í vikunni samning sinn við Al Sadd í Katar, en þetta verður því hans síðasta tímabil með Barcelona. Xavi hefur verið hjá Barcelona í 24 ár, en hann hefur verið fastamaður í liðinu undanfarin fimmtán ár.

Hann felldi tár í þakkarræðu sinni á Nývangi í kvöld, en hún var afar hjartnæm og þakkaði hann félaginu, stuðningsmönnum og fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn.

„Takk fyrir allt, daginn í dag og öll þessi tímabil. Þið vitið ekki hversu stoltur ég er að vera leikmaður Barcelona, við erum besta félag í heiminum sama hvað hver segir,“ sagði Xavi fyrir framan stuðningsmennina á Nývangi.

Þetta var þó ekki síðasta verkefni Xavi í treyju Barcelona, en hann á enn eftir að spila gegn Athletic Bilbao á Nývangi í bikarúrslitum. Barcelona mætir þá Juventus í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í byrjun júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert