Tilfiningaflóð og tár á Nývangi

Xavi Hernandez spilaði sinn síðasta leik fyrir hönd Barcelona í …
Xavi Hernandez spilaði sinn síðasta leik fyrir hönd Barcelona í dag. AFP

Barcelona var fyrir leikinn í dag búið að tryggja sér spænska deildarmeistaratitilinn, en liðið stóð lengi í baráttu við Real Madrid og Atletico Madrid.

Leikurinn í dag hefði undir eðlilegum kringumstæðum verið þýðingarlítill, en var það ekki þar sem einn besti leikmaður liðsins undanfarin fimmtán ár, Xavi Hernandez, tilkynnti það á dögunum að hann væri á leið til Katar þar sem hann mun að öllum líkindum ljúka ferlinum.

Xavi hefur verið einn fremsti knattspyrnumaður heims undanfarin ár og er óhætt að segja að hann hafi verið potturinn og pannan í mögnuðum árangri Börsunga síðasta áratug eða svo.

Hann lék sinn síðasta deildarleik á Nývangi, en liðið gerði 2:2 jafntefli við Deportivo La Coruna. Xavi var í byrjunarliði Barcelona, en var skipt af velli á 86. mínútu. Áhorfendur risu upp úr sætum sínum og klöppuðu fyrir spænska miðjumanninum sem táraðist á leið af velli, eins og gefur að skilja.

Tímabilið er þó ekki búið hjá Xavi. Tveir leikir eru eftir, en liðið mætir Juventus í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í byrjun júní auk þess sem liðið mætir Athletic Bilbao í úrslitaleik spænska bikarsisn og á hann því möguleika á að taka tímabilið með trompi.

Lionel Messi gerði bæði mörk Barcelona í dag, en Rafinha og Neymar lögðu upp mörkin. Atletico Madrid og Valencia nældu sér í Meistaradeildarsæti á meðan Sevilla sat eftir með sárt ennið.

Sevilla og Villarreal fengu Evrópudeildarsæti og þá féllu Eibar, Almeria og Cordoba niður í næst efstu deild.

Alfreð Finnbogason kom ekki við sögu er Real Sociedad sigraði Rayo Vallecano 4:2, en hann sat allan tímann á varamannabekknum.

Stuðningsmenn Barcelona voru með þennan borða á lofti á leiknum. …
Stuðningsmenn Barcelona voru með þennan borða á lofti á leiknum. Falleg kveðjustund á Nou Camp. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert