Emil lék í jafntefli gegn Parma

Emil í leik með Hellas Verona.
Emil í leik með Hellas Verona. AFP

Sex leikir fóru fram í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag, en Emil Hallfreðsson og félagar hans í Hellas Verona gerðu 2:2-jafntefli við Parma.

Parma komst í tveggja marka forystu gegn Hellas Verona í næstsíðustu umferð ítalska boltans í dag, en Antonio Nocerino og Silvestre Varela gerðu mörkin. Reynsluboltinn Luca Toni tók þó við sér undir lok fyrri hálfleiks og minnkaði muninn áður en hann jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok.

Emil Hallfreðsson lék allan tímann í liði Verona, en hann hefur verið lykilmaður í liðinu undanfarin ár. Verona er í 13. sæti deildarinnar með 45 stig.

Cesena tapaði þá fyrir Cagliari 1:0 á Orogel-leikvanginum, en Hörður Björgvin Magnússon sat allan tímann á varamannabekknum hjá Cesena. Hann var að snúa aftur eftir meiðsli sem hann hlaut í vináttulandsleiknum gegn Eistlandi í mars. Cesena er þegar fallið niður í Seríu B, en Hörður er á láni frá ítalska meistaraliðinu Juventus.

Fiorentina vann þá 3:2-sigur á Palermo, en sigurinn var afar mikilvægur í baráttu liðsins um Evrópudeildarsæti. Liðið er nú í 5. sæti með 61 stig, tveimur stigum á eftir Napoli sem er í 4. sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert