Blatter segir von á fleiri slæmum fréttum

Sepp Blatter á opnunarhátíð ársþings FIFA í dag.
Sepp Blatter á opnunarhátíð ársþings FIFA í dag. AFP

Sepp Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, var nú rétt í þessu að halda opnunarræðu sína á ársþingi FIFA í Sviss.

Sem kunnugt er var fjöldi hátt­settra manna inn­an FIFA var hand­tek­inn í gær, grunaðir um spill­ingu. Á morg­un stend­ur enn til að kosið verði um for­seta til næstu fjög­urra ára og stend­ur valið á milli Blatter og jórd­anska prins­ins Ali bin al Hus­sein. 

„Þetta eru óútreiknanlegir tímar fyrir FIFA. Atburðir gærdagsins kasta skugga yfir fótboltaheiminn. Gjörðir einstaklinga hafa kallað fram skömm og niðurlægingu á fótboltann og það er nauðsynlegt að komast að rót vandans. Fólk er að segja að ég sé ábyrgur, en ég get ekki fylgst alltaf með öllum. Ef fólk vill breyta rangt þá mun það einnig reyna að fela það,“ sagði Blatter í ræðu sinni.

„Næstu mánuðir verða ekki auðveldir og ég er viss um að fleiri slæmar fréttir muni fylgja í kjölfarið. Við megum ekki láta orðspor FIFA vera dregið niður í svaðið. Það verður að stoppa hér og nú,“ sagði Blatter og segir spillinguna hafa sett ljótan blett á fótboltann.

„Þeir sem eru spilltir í fótboltanum eru mikill minnihluti og þeir þurfa að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Við munum hjálpa yfirvöldum að komast til botns í þessu Það er ekkert rými fyrir nokkurs konar spillingu og við þurfum nú að fara í að endurbyggja traust fólks á FIFA sem við höfum glatað.

Við þurfum að standa saman fyrir fótboltann, fyrir heiminn og fyrir friði. Takk fyrir,“ voru lokaorð Blatters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert