England ætti að fá HM 2018

Lennart Johansson fór gegn Sepp Blatter (sjá mynd) fyrir 17 …
Lennart Johansson fór gegn Sepp Blatter (sjá mynd) fyrir 17 árum þegar Svisslendingurinn var fyrst kjörinn forseti FIFA. AFP

Lennart Johansson, fyrrverandi forseti knattspyrnusambands Evrópu, segir að í ljósi meintrar spillingar í sambandi við úthlutun heimsmeistaramótanna 2018 og 2022 þá verði FIFA að taka til endurskoðunar ákvarðanir um gestgjafa mótanna.

HM 2018 á að fara fram í Rússlandi og fjórum árum síðar er ætlunin að mótið fari fram í Katar. FIFA hefur sagt að þessu verði ekki breytt þrátt fyrir handtöku háttsettra embættismanna sambandsins í gær, og ákvörðun svissneskra yfirvalda um að taka til rannsóknar hvernig staðið var að úthlutun HM 2018 og 2022 vegna gruns um spillingu.

„Ég tel að þeir muni endurskoða þessar ákvarðanir. Sepp Blatter [forseti FIFA] hefur sjálfur sagt að ákvörðunin um að leita austur hafi ekki verið tekin með réttum hætti. Ég er viss um að núna hafi sambandið frumkvæði að því að taka nýja ákvörðun,“ sagði Johansson, sem vill að HM 2018 verði í Englandi.

„Englendingar hafa ekki haldið mótið síðan 1966 en þar á að vera vagga fótboltans, hvað sem okkur finnst um það. Þeir eiga skilið að fá athyglina,“ sagði Johansson við sænska Sportbladet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert