Spillt samband og Suárez ætti að losna úr banni

Luis Suárez er enn að bíta úr nálinni með það …
Luis Suárez er enn að bíta úr nálinni með það að hafa læst tönnunum í Giorgio Chiellini í fyrra. AFP

Knattspyrnusamband Úrúgvæ hefur í hyggju að áfrýja leikbanninu langa sem Luis Suárez fékk eftir HM í fyrra, í ljósi þess að FIFA sé rúið trausti í kjölfarið á handtökunum í gær.

Suárez var úrskurðaður í bann af FIFA eftir að hafa bitið í öxl Giorgio Chiellini í leik Úrúgvæ og Ítalíu á HM í Brasilíu. Hann var úrskurðaður í 9 leikja bann með landsliði sínu auk þess að fá fjögurra mánaða bann frá öllum keppnum með félagsliði sínu.

Banninu var áfrýjað til íþróttadómstólsins (CAS) sem ákvað að það skyldi standa. Það þýðir að Suárez missir af Suður-Ameríkubikarnum í Síle í sumar. Forráðamenn úrúgvæska sambandsins hafa hins vegar ekki gefið upp alla von.

„Ef Luis Suárez er samþykkur því þá ætlum við að biðja um að banninu verði aflétt vegna þess að hann var úrskurðaður í bann af sambandi sem er grunað um spillingu,“ hefur Daily Mirror eftir knattspyrnusambandi Úrúgvæ.

Eugenio Figueredo, fyrrverandi formaður knattspyrnusambands Úrúgvæ, var einn þeirra sem í gær var handtekinn vegna gruns um mútuþægni og spillingu í störfum sínum fyrir FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert