UEFA fylkir sér á bakvið Hussein

Ali bin al Hussein og Sepp Blatter.
Ali bin al Hussein og Sepp Blatter. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, mun ekki sniðganga forsetakosningar Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, á morgun og mun fylkja sér á bakvið jórdanska prinsinn Ali bin al Hussein, sem býður sig fram gegn Sepp Blatter, sitjandi forseta.

Þetta mun vera niðurstaðan eftir fundarhöld fulltrúa 53 aðildarþjóða UEFA í Sviss í dag, samkvæmt fyrstu fréttum frá erlendum fréttastofum.

Ali Bin Al Hussein, sem er 39 ára gamall og sonur Husseins Jórdaníukonungs, hyggst beita sér fyrir hreinsunum og endurskipulagningu á FIFA, nái hann kjöri. Blatter hefur setið í sautján ár í forsetaembættinu.

Þá hefur Englendingurinn David Gill, stjórnarmaður í UEFA og fulltrúi sambandsins í framkvæmdastjórn FIFA, tilkynnt að hann muni ekki sitja áfram í framkvæmdastjórninni ef Blatter verði endurkjörinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert