Ætti að sýna sóma og segja af sér

Luis Figo var í framboði til forseta FIFA en dró …
Luis Figo var í framboði til forseta FIFA en dró sig til baka í vikunni. AFP

Portúgalska goðsögnin Luis Figo segir úrslit forsetakosninga Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, vera skelfileg tíðindi en kosið var á ársþingi sambandsins í Zürich í dag.

Sepp Blatter var þá endurkjörinn forseti og mun sitja sitt fimmta kjörtímabil. Hann er afar umdeildur forseti, ekki síst eftir þau hneykslismál sem komu upp í vikunni og endaði í lögreglurannsókn á innviðum FIFA.

„Í dag var svartur dagur í Zürich. FIFA hefur tapað, en ekki síst hefur fótboltinn tapað í heild og allir sem vilja honum vel,“ sagði Figo, sem sjálfur var í framboði til forseta. Hann dró það hins vegar til baka og studdi þess í stað viðjórd­anski prins­inn Ali bin al-Hus­sein. Ali hlaut 73 atkvæði í fyrstu umferð kosninganna en dró sig til baka fyrir aðra umferð, þar sem búist var við sigri Blatters.

Blatter sagði að eftir að rannsókn hófst á FIFA í vikunni að hann vissi ekkert um málið, enda gæti hann ekki stjórnað öllum.

„Þau ummæli Blatters eru mjög móðgandi. Þessir einstaklingar sem hafa klifið upp metorðastigann í gegnum árum hafa dregið FIFA niður í svaðið. Þar er Blatter í fararbroddi. Ef hann hefur einhvern sóma í sér ætti hann að segja af sér strax,“ sagði Figo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert