„Getum tekið fyrsta skrefið í átt til breytinga“

Ali bin al Hussein í ræðustól í dag.
Ali bin al Hussein í ræðustól í dag. AFP

Jórd­anski prins­ins Ali bin al-Hus­sein, sem er í framboði til forseta FIFA gegn Sepp Blatter, flutti stefnuræðu sína á ársþingi sambandsins nú rétt í þessu, en kosning er hafin. Hann boðaði breytingar og opnari stjórnunarhætti.

„Við erum verndarar þessarar íþróttar sem heimurinn dýrkar. Þetta er íþrótt sem sameinar ríki og er uppfull af fyrirmyndum, bæði konum og körlum. Vonin er sterk í lífinu, meira að segja á dimmustu nætur þurfa að víkja fyrir dögun. Við viljum aukið gagnsæi og ábyrgð þar sem allir stefna að sama markmiði; að gera vel fyrir FIFA og fótboltann í heild,“ sagði al-Hussein og vísaði þar með til þeirra hneykslismála sem komu upp í vikunni.

„Í dag getum við tekið fyrsta skrefið að breytingum. Við verðum að sýna heiminum að FIFA er fjölskylda sem er skuldbundinn íþróttinni. Við stöndum á krossgötum í dag og það þarf sterkan leiðtoga til að laga þann glundroða sem nú ríkir. Ég er reiðubúinn til þess,“ sagði prinsinn.

„Ég lofa ykkur því, að ég mun helga mig íþróttinni án afskipta. Ég bið ykkur um að leggja traust á mig og bið auðmjúkur um ykkar atkvæði. Ég mun hlusta á það sem þið hafið að segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert