Súrir því þeir fengu ekki HM 2018 og 2022

Sepp Blatter gengur framhjá mótherja sínum í kjörinu í dag, …
Sepp Blatter gengur framhjá mótherja sínum í kjörinu í dag, Ali bin al Hussein, og forseta UEFA, Michel Platini, í þingsalnum í Zürich í morgun. AFP

Sepp Blatter, forseti FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, gaf í skyn í ræðu á þingi sambandsins í Zürich fyrir stundu að atburðarás síðustu daga væri tilkomin vegna þess að England og Bandaríkin hefðu ekki fengið gestgjafahlutverkin á HM árin 2018 og 2022.

Rússland og Katar hrepptu hnossin tvö en Englendingar sóttu um HM 2018 og Bandaríkjamenn um HM 2022.

„Ef tvær aðrar þjóðir hefðu verið valdar á sínum tíma, hefðu þau vandamál sem blasa við okkur í dag ekki komið upp. En við getum ekki ferðast til baka í tíma og gert hlutina öðruvísi. Við vitum ekki hvernig þetta hefði þá litið út," sagði Blatter m.a. í ræðu sinni.

„Það er ekki gott þegar allt þetta gerist tveimur dögum fyrir forsetakjörið. Ég ætla ekki að nota orðð „tilviljun“ en ég set stórt spurningamerki við þetta," sagði Blatter ennfremur en þar vísaði hann að sjálfsögðu til atburða miðvikudagsins þegar sjö stjórnarmenn FIFA voru handteknir í Zürich, sakaðir um spillingu og mútur.

Forsetakjörið fer fram á eftir og gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir um þrjúleytið. Jórdanski prinsinn Ali bin al Hussein býður sig fram gegn Blatter og nýtur stuðnings flestallra Evrópuþjóða en óvíst er um stuðning við hann í öðrum heimsálfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert