Yfirgaf fangelsið í sjúkrabíl

Jack Warner.
Jack Warner. AFP

Jack Warner, fyrrverandi varaforseti FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, var í kvöld látinn laus gegn tryggingu úr fangelsi í heimalandi sínu, Trínidad og Tóbagó, en þar hafði hann setið síðan hann gaf sig fram við lögregluyfirvöld í landinu í gær.

Warner er einn þeirra sem ákærðir eru fyrir aðild að mútum og spillingu innan FIFA og bandaríska alríkislögreglan hefur krafist framsals hans. Tólf ákæruliðir beinast gegn honum. Samkvæmt fregnum fjölmiðla í Trínidad og Tóbagó yfirgaf hann fangelsið í sjúkrabíl.

Yfirlýsing frá Warner var birt í fjölmiðlum í heimalandi hans í kvöld. Þar segir m.a.: „Ég er saklaus og hætti afskiptum af knattspyrnunni fyrir fjórum árum. Undanfarin ár hef ég helgað líf mitt baráttunni fyrir því að bæta kjör allra íbúa þessa lands, sama hvað trúarbrögð þeir aðhyllast og hvaða kynþætti þeir tilheyra."

Jack Warner átti sæti í framkvæmdastjórn FIFA frá 1983 til 2011 og var einn af valdamestu mönnum sambandsins. Þá var hann forseti knattspyrnusambands Norður- og Mið-Ameríku, CONCACAF, frá 1990 til 2011, þegar honum var bæði vikið úr embætti þar og úr framkvæmdastjórn FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert