Afþakkar stjórnunarstöðu vegna Blatters

Höfuðstöðvar FIFA.
Höfuðstöðvar FIFA. AFP

David Gill, sem kosinn var í framkvæmdastjórn Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, á ársþingi þess í gær tilkynnti í morgun að hann hyggðist ekki taka sæti í stjórninni. Þetta gerir hann í kjölfar þess að Sepp Blatter var endurkjörinn forseti FIFA.

Gill er fyrrum stjórnarformaður Manchester United og mætti ekki á fyrsta fund stjórnarinnar sem haldinn var í morgun. Hann átti að taka við hlutverki varaforseta FIFA fyrir hönd Bretlands, en hafði gefið út að hann hyggðist ekki taka því ef Blatter yrði endurkjörinn.

„Ég sé ekki fram á breytingar hjá FIFA til góða fyrir fótboltann á meðan herra Blatter er við stjórn. Þetta er ekki auðveld ákvörðun en atburðir síðustu daga hafa sannfært mig um að ég geti einfaldlega ekki starfað í stjórn FIFA undir hans stjórn. Ég átta mig á því að Blatter var kosinn í lýðræðislegum kosningum og óska FIFA alls hins besta á þessum erfiðu tímum. Ég einbeiti mér nú að stöðu minni innan enska knattspyrnusambandsins og þess Evrópska, UEFA,“ sagði Gill.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert