Blatter sakar UEFA um hatursáróður

Sepp Blatter.
Sepp Blatter. AFP

Sepp Blatter, sem var endurkjörinn sem forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, í gær, segist steinhissa á rannsókn bandarískra stjórnvalda á spillingu innan FIFA sem leiddi til þess að fjórtán einstaklingar voru handteknir á þriðjudaginn var, þar af sjö háttsettir menn innan FIFA.

Í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi sakaði Blatter jafnframt Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, um að bera ábyrgð á því sem hann sagði vera hatursáróður gegn FIFA.

Hann sagði að UEFA hefði reynt að hafa óeðlileg áhrif á forsetakjörið sem fór fram í borginni Zurich í Sviss í gær. Benti hann meðal annars á að bæði Evrópu og Bandaríkjamenn hefðu verið ósáttir með ýmsar ákvarðanir sínar í gegnum árin. Bandaríkin hefðu til að mynda ekki fengið að halda HM 2022, heldur Katar, og þá hefðu Englendingar lotið í lægra haldi fyrir Rússum í baráttunni um að fá að halda HM 2018.

Blatter sagði það vera heldur sérstakt að hneykslismálið hefði komið upp aðeins fáeinum dögum áður en forsetakjörið fór fram. Hann furðaði sig á ummælum Michel Platini, forseta UEFA, sem hefur hvatt Blatter til að segja af sér vegna málsins. Platini studdi jórdanska prinsinn Ali bin al-Hussain í forsetakjörinu í gær.

Blatter sagðist hafa fyrirgefið Platini en að hann muni seint gleyma yfirlýsingum hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert