Emil lagði upp mark gegn meisturunum

Emil Hallfreðsson lagði upp mark í dag.
Emil Hallfreðsson lagði upp mark í dag. Ómar Óskarsson

Emil Hallfreðsson lagði upp mark Hellas Verona þegar liðið mætti Ítalíumeisturum Juventus á heimavelli í síðustu umferð A-deildinni þar í landi í dag.

Roberto Pereira kom Juventus yfir undir lok fyrri hálfleiks, en strax í upphafi þess síðari jafnaði gamla brýnið Luca Toni metin eftir sendingu frá Emil. Þetta var 22. mark hans í deildinni í vetur og er hann markahæstur, 38 ára gamall.

En einungis níu mínútum eftir jöfnunarmarkið kom Fernando Llorente Juventus aftur yfir en í uppbótartíma jöfnuðu heimamenn með marki Juan Gómez Taleb, lokatölur 2:2.

Juventus endaði því tímabilið með 87 stig á toppnum, en Hellas Verona með 46 stig í þrettánda sæti. Lokaumferðinni lýkur hins vegar á morgun svo endanleg staða Emils og félaga gæti breyst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert