Sepp Blatter segir af sér

Sepp Blatter.
Sepp Blatter. AFP

Sepp Blatter sagði rétt í þessu af sér sem forseti FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Boðað  var  til blaðamannafundar í höfuðstöðvum FIFA með stuttum fyrirvara nú síðdegis. Í upphafi fundarins var tilkynnt að Blatter myndi koma með yfirlýsingu en ekki svara spurningum fréttamanna.

„Ég hef velt rækilega fyrir mér stöðu minni sem forseti og síðustu 40 áranna í mínu lífi þar sem ég hef verið nátendur FIFA. Ég vil bara  gera það sem best er fyrir fótboltann. Kosningum er lokið en ekki þeim áskorunum sem  bíða okkar. FIFA þarfnast algjörrar endurskipulagningar. Ég mun kalla saman sérstakt þing til að velja nýjan forseta," sagði Blatter.

Ekki er alveg hægt að átta sig á hvaða hlutverk hann ætlar sjálfum sér í framhaldinu.

„Ég verð ekki í kjöri, nú er ég laus undan skuldbindingum kosninga. Nú verð ég í aðstöðu til að koma af stað endurskipulagningu til að fylgja eftir okkar upphaflegu aðgerðum.

Við höfum gert allt sem við höfum getað undanfarin ár, og því þarf að halda áfram þar sem það hefur ekki tekist sem skyldi. 

Ég var sannfærður um að það væri best fyrir fótboltann að ég yrði áfram forseti. En þó fulltrúar þingsins hafi kosið mig á ný virðist ég ekki njóta stuðnings allra í fótboltaheiminum.

Hagsmunir FIFA eru mér mjög mikilvægir og þessvegna hef ég tekið þessa ákvörðun. Það sem skiptir mig mestu máli er FIFA. Takk fyrir góðar viðtökur," sagði Blatter og hvarf úr ræðustóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert