Skoraði þrennu í 1:10 ósigri

Angie Ponce situr vonsvikin á vellinum eftir að Eseosa Aigbogun …
Angie Ponce situr vonsvikin á vellinum eftir að Eseosa Aigbogun kom Sviss í 2:0 í leiknum í kvöld. AFP

Er hægt að skora þrennu í fótboltaleik en tapa honum samt 1:10? Jú, það gerðist í leik Sviss og Ekvador á heimsmeistaramóti kvenna sem var að ljúka í Vancouver í Kanada.

Sú sem þar var að verki heitir Angie Ponce og leikur með Ekvador. Hún varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 24. mínútu og með því komst Sviss yfir, 1:0. 

Ponce var aftur á ferð á 64. mínútu þegar hún skoraði fyrir Ekvador úr vítaspyrnu og minnkaði þá muninn í 7:1.

En aðeins sjö mínútum síðar gerði Ponce sitt annað sjálfsmark í leiknum og staðan var orðin 8:1.

Fabienne Humm skráði sig líka í sögubækurnar því hún skoraði þrennu fyrir Sviss á fimm mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks og breytti stöðunni úr 2:0 í 5:0. Engin hefur skorað þrjú mörk á jafn skömmm tíma í lokakeppni HM kvenna.

Ramona Bachmann, leikmaður Rosengård í Svíþjóð, skoraði líka þrennu og gerði hana á 22 mínútum í seinni hálfleiknum. Hin tvö mörk Sviss gerðu Eseosa Aigbogun og Martina Moser.

Sviss fékk þar með sín fyrstu stig í riðlinum og er með 3 eins og Japan og Kamerún, sem mætast í Vancouver í nótt en sá leikur hefst klukkan tvö að íslenskum tíma.

Við blasir að leikur Sviss og Kamerún í lokaumferðinni ráði úrslitum um hvort liðið fylgi heimsmeisturum Japans í 16-liða úrslitin.

Fabienne Humm (16) fagnar einu þriggja marka sinna gegn Ekvador.
Fabienne Humm (16) fagnar einu þriggja marka sinna gegn Ekvador. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert