Rassapotarinn fær styttra bann

Gonzalo Jara lætur sig falla í grasið með miklum tilburðum.
Gonzalo Jara lætur sig falla í grasið með miklum tilburðum. AFP

Síleska knattspyrnusambandið áfrýjaði um daginn 3 leikja banni sem Gonzalo Jara fékk fyrir að pota í rassinn á Edinson Cavani í átta liða úrslitum Ameríkubikarsins. Áfrýjunin bar ávöxt og var bannið stytt niður í 2 leiki.

Jara stakk fingrinum í afturendann á Cavani og lét sig síðan falla með tilþrifum þegar Cavani sneri sér við. Dómari leiksins missti af atvikinu en reiknaði með því að Cavani hefði slegið Jara og gaf honum sitt annað gula spjald í leiknum. 

Jara mun samt ekki spila fleiri leiki í Ameríkubikarnum í ár en hann mun þó ekki missa af næsta leik í undankeppni HM í knattspyrnu. Annað má segja um aumingja Cavani.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert