Ronaldo á Ólympíuleikunum?

Cristiano Ronaldo var kjörinn besti leikmaður heims 2013 og 2014.
Cristiano Ronaldo var kjörinn besti leikmaður heims 2013 og 2014. AFP

Þrátt fyrir að hafa tapað úrslitaleiknum á EM U21-landsliða í knattspyrnu hafa Portúgalar tryggt sér sæti í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna sem haldnir verða í Ríó á næsta ári.

Þar með gæti svo farið að Cristiano Ronaldo keppi á Ólympíuleikunum, líkt og hann gerði 19 ára gamall þegar þeir fóru fram í Aþenu 2004. Á næstu Ólympíuleikum má hver þátttökuþjóð tefla fram þremur leikmönnum sem fæddir eru fyrir 1. janúar 1993. Ljóst er að portúgalska þjóðin vonast til að Ronaldo verði einn þessara þriggja, en óljóst er hvort af því verður:

„Það er mögulegt,“ sagði Fernando Gomes, formaður portúgalska knattspyrnusambandsins. „Við megum nota þrjá leikmenn sem eru eldri en 23 ára. Cristiano er einn þeirra sem koma til greina en við höfum ekki sest niður og rætt þetta,“ sagði Gomes.

Auk Portúgals hafa Argentína, Þýskaland, Danmörk og Svíþjóð tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum, auk heimamanna í Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert