Ufa gerði tilboðið í Matthías

Matthías Vilhjálmsson hefur spilað frábærlega fyrir Start.
Matthías Vilhjálmsson hefur spilað frábærlega fyrir Start. Ljósmynd/ikstart.no

Fram kom í fréttum í Noregi á dögunum að norska úrvalsdeildarliðið Start hafi hafnað tilboði frá ónefndu liði í Rússlandi í sóknarmanninn Matthías Vilhjálmsson.

Samkvæmt heimildum norska blaðsins Fædrelandsvennen er það lið Ufa sem gerði tilboðið í Matthías en liðið, sem er fjögurra ára gamalt, hafnaði í 12. sæti í rússnesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Þekktasti leikmaður liðsins er Emmanuel Frimpong, fyrrum leikmaður Arsenal.

Ufa bauð jafnvirði 37 milljónir íslenskra króna í Matthías en Start vill fá helmingi hærri upphæð fyrir Ísfirðinginn, sem er markahæsti leikmaður Start á tímabilinu með 6 mörk og hefur spilað sérlega vel með því.

Matthías skoraði glæsilegt mark með hjólhestaspyrnu um síðustu helgi sem hefur farið út um alla heimsbyggðina á internetinu og að sögn Fædrelandsvennen hafa þessi tilþrif kveikt enn frekari áhuga Rússanna að fá Matthías til liðs við sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert