„Alltaf líkað vel við þýska fótboltann“

Jón Daði Böðvarsson fagnar sigurmarki Kolbeins Sigþórssonar gegn Tékklandni í …
Jón Daði Böðvarsson fagnar sigurmarki Kolbeins Sigþórssonar gegn Tékklandni í síðasta mánuði. Eggert Jóhannesson

„Mér hefur alltaf líkað vel við þýska fótboltann. Kaiserslautern er stórt félag í góðri deild. Ég held að minn leikstíll henti þeim vel,“ sagði landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Jón Daði Böðvarson við Aftenbladet í dag.

Eins og við greindum frá í gær höfnuðu forráðamenn Viking tilboði þýska B-deildarliðsins Kaiserslautern í kappann í gær en tilboðið var talið hljóða upp á tvær til þrjár milljónir norskra króna, eða 33 til 50 milljónir íslenskra.

Jón Daði á minna en hálft ár eftir af samningi sínum og þá er hann frjáls ferða sinna.

"Ég hef ekki talað við forráðamenn Kaiserslautern en ég hef heyrt að þeir verði áfram áhugasamir um að fá mig jafnvel þó að þeir hafi fengið neikvætt svar í fyrstu tilraun," sagði Jón Daði sem segir aðspurður að það kæmi sér ekki á óvart ef hann yrði seldur í sumar.

"Nei, það kæmi mér ekki á óvart. Módelið hjá Viking hefur alltaf verið að finna hæfileikaríka leikmenn og selja þá með hagnaði. En ég skil að það flækir aðeins hlutina að Veton Berisha er farinn," sagði Jón Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert