Bandaríkin í úrslit - Þjóðverjar klúðruðu víti - myndskeið

Carli Lloyd fagnar eftir að hún kom bandaríska liðinu yfir …
Carli Lloyd fagnar eftir að hún kom bandaríska liðinu yfir úr vítaspyrnu á 69. mínútu. AFP

Bandaríkin leika til úrslita um heimsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu í fjórða skipti eftir sigur á Evrópumeisturum Þýskalands, 2:0, í undanúrslitaleik sem var að ljúka í Montreal í Kanada.

Bandaríkin, sem hömpuðu heimsmeistaratigninni árin 1991 og 1999 en töpuðu fyrir Japan í úrslitaleiknum í síðustu keppni, árið 2011, mæta annaðhvort Japan eða Englandi í úrslitaleiknum á sunnudagskvöldið. Það kemur hinsvegar í hlut Þjóðverja að leika um bronsið gegn tapliðinu í þeim leik á laugardagskvöldið.

Þýskaland byrjaði leikinn betur en Bandaríkin fengu fyrsta dauðafærið á 15. mínútu þegar Alex Morgan komst ein inn í þýska vítateiginn. Nadine Angerer sá við henni og varði glæsilega með fótunum.

Gera þurfti nokkurra mínútna hlé á leiknum eftir hálftíma þegar Alexandra Popp og Morgan Brian skölluðu saman en eftir talsverða aðhlynningu gátu þær báðar haldið áfram.

Bandaríska liðið sótti meira eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Morgan var aftur hættuleg á 43. mínútu þegar hún slapp inní vítateiginn vinstra megin og reyndi að lyfta boltanum yfir Angerer úr þröngu færi en hitti ekki markið.

Vítaspyrna Þjóðverja í súginn

Á 59. mínútu dró til tíðinda þegar Julie Johnston braut á Alexöndru Popp í dauðafæri í vítateig Bandaríkjanna. Johnston slapp vel með að fá bara gult spjald því Popp var komin ein gegn Hope Solo í markinu. Dæmd var vítaspyrna en Célia Sasic fór illa að ráði sínu og skaut framhjá bandaríska markinu.

Þjóðverjar sóttu áfram og Anja Mittag átti hörkuskot rétt yfir bandaríska markið á 63. mínútu. Morgan var á ný hættuleg við þýska markið rétt á eftir og skaut hárfínt framhjá.

Og strax í næstu sókn brunaði Morgan inní vítateig Þjóðverja þar sem Annika Krahn skellti henni. Vítaspyrna, sem þó var umdeildur dómur þar sem spurning var hvort brotið ætti sér stað innan vítateigs eða utan. 

Carli Lloyd tók vítaspyrnuna, á 69. mínútu, og skoraði af öryggi, 1:0.

Á 84. mínútu var svo þýska vörnin spiluð sundur og saman, Carli Lloyd komst að endamörkum vinstra megin og sendi inní markteiginn þar sem varamaðurinn Kelley O'Hara var mætt og skoraði, 2:0.

Japan og England mætast í seinni undanúrslitaleiknum annað kvöld, miðvikudagskvöld, klukkan 23.00.

Carli Lloyd skorar úr vítaspyrnunni og kemur Bandaríkjunum yfir:

Kelley O'Hara skorar seinna mark Bandaríkjanna og innsiglar sigurinn:

Célia Sasic grípur um höfuðið eftir að hafa skotið framhjá …
Célia Sasic grípur um höfuðið eftir að hafa skotið framhjá marki Bandaríkjanna úr vítaspyrnu á 59. mínútu. AFP
Alexandra Popp og Morgan Brian skalla saman og þær lágu …
Alexandra Popp og Morgan Brian skalla saman og þær lágu báðar óvígar eftir. Gátu þó haldið áfram eftir aðhlynningu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert