Blind ráðinn þjálfari hollenska landsliðsins

Danny Blind, þjálfari hollenska landsliðsins.
Danny Blind, þjálfari hollenska landsliðsins. Heimasíða Ajax

Hollenska knattspyrnusambandið staðfesti í dag ráðningu á nýjum landsliðsþjálfara, en Danny Blind tekur við liðinu.

Guus Hiddink lét af störfum í vikunni, en árangur hollenska liðsins hefur ekki verið upp á marga fiska í undankeppni Evrópumótsins til þessa og er liðið einungis með 10 stig eftir sex leiki.

Danny Blind, sem hefur verið aðstoðarþjálfari Hiddink í undankeppninni, átti að taka við liðinu eftir Evrópumótið í Frakklandi á næsta ári, en ljóst er að hann hefur störf fyrr en áætlað var.

Blind hefur ekki mikla reynslu sem aðalþjálfari, en hann þjálfaði Ajax eitt tímabil, frá 2005 til 2006. Þá var hann aðstoðarþjálfari Ajax frá 2008 til 2011 áður en hann ákvað að gegna sömu stöðu hjá hollenska landsliðinu.

Þess má til gamans geta að sonur hans, Daley Blind, sem leikur með Manchester United á Englandi er lykilmaður í hollenska landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert