Evrópumeistari án félags

John Guidetti var magnaður á EM í Tékklandi.
John Guidetti var magnaður á EM í Tékklandi. AFP

Sænski framherjinn, John Guidetti, er án félags eftir að samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City rann út í gær, en hann fagnaði Evrópumeistaratitli með U21 árs landsliði Svíþjóðar á sama tíma.

Guidetti, sem er 23 ára gamall framherji, hefur undanfarin sjö ár verið á mála hjá Manchester City á Englandi, en hann kom til félagsins frá Brommapojkarna í Svíþjóð.

Honum tókst einungis að leika einn keppnisleik fyrir Man City, en það var í deildabikarnum gegn WBA í september 2010. Hann lagði upp mark í þeim leik, en fékk ekki tækifærið aftur þrátt fyrir það.

Hann fór á lán til Feyenoord, Twente, Stoke, Burnley og nú síðast Glasgow Celtic, þar sem hann gerði 15 mörk í 35 leikjum fyrir félagið.

Samningur hans rann út í gær, en Man City staðfesti í apríl að félagið myndi ekki framlengja samning hans og er honum því nú frjálst að leita sér að nýju félagi en það ætti ekki að reynast erfitt fyrir kappann sem var magnaður með U21 árs landsliði Svíþjóðar á EM í Tékklandi.

Svíar fögnuðu sigri á mótinu í gær er liðið lagði Portúgal í vítaspyrnukeppni, en Guidetti var magnaður með liðinu og gerði 2 mörk í 5 leikjum auk þess sem hann lagði upp eitt mark, en hann var afar mikilvægur liðinu.

Hann gerði þá 4 mörk í 6 leikjum í undankeppninni, þar af mikilvægasta mark liðsins í allri keppninni er hann skoraði á lokamínútunni gegn Frakklandi í umspili um sæti á mótinu. Mark sem hann mun líklega aldrei gleyma.

Það verður áhugavert að sjá næsta skref hjá þessum efnilega framherja, en ljóst er að lið koma til með að bítast um undirskrift hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert