Fengu símtal frá Vilhjálmi Bretaprins

Vilhjálmur Bretaprins.
Vilhjálmur Bretaprins. GLYN KIRK

Enska kvennalandsliðið í knattspyrnu fékk heldur óvænta hringingu í morgun. Á línunni var enginn annar en Vilhjálmur Bretaprins sem sló á þráðinn til þeirra á morgunæfingu liðsins sem mun mæta Japan í kvöld í  undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Kanada.

„Hamingjuóskir til ykkar allra sem hafið náð svo langt og gangi ykkur vel í leiknum í dag,“ sagði Vilhjálmur við liðið.

„Það eru allir að fylgjast með ykkur, þið gerið landa ykkar stolta. Japan er erfitt lið að vinna en þið hafið sýnt að þið eruð með eitt besta lið í heimi. Þið eruð að skrá ykkur í sögubækurnar,“ sagði Vilhjálmur enn fremur í símtali sínu.

„Njótið leiksins, við höfum trú á ykkur, takk fyrir að veita okkur hinum afsökun á að vaka svona lengi fram eftir til þess að horfa á fótbolta, gangi ykkur vel,„ sagði prinsinn og og smellti einu „Go get'em“ undir lok símtalsins.

England mætir Japan kl. 23 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert