Lærdómsríkasta tímabil ferilsins

Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórtán umferðir eru liðnar í norsku úrvalsdeildinni og Íslendingaliðið Lilleström, undir stjórn Rúnars Kristinssonar, er í miðri deild með 20 stig.

Rúnari til halds og trausts er Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og karlaliðs ÍBV. Morgunblaðið ræddi við Sigurð um gott gengi Lilleström á tímabilinu sem er hálfnað.

„Ég held við séum að gera betur en flestir bjuggust við. Við fengum úr minna fjármagni að spila en á síðasta ári og Lilleström hefur verið að draga saman seglin undanfarin ár og verið í fjárhagsvandræðum,“ sagði Sigurður.

Stuttu eftir að Rúnar og Sigurður hófu störf tilkynnti norska knattspyrnusambandið að Lilleström skyldi hefja keppni með eitt stig í mínus vegna þess að því hefði ekki tekist að uppfylla fjárhagsleg skilyrði norska leyfiskerfisins. Þrátt fyrir það er liðið aðeins tveimur stigum á eftir stórliðinu Molde, sem hefur margfalt meira fjármagn en Lilleström, í 5. sæti deildarinnar.

„Það horfir þó allt til betri vegar og við höfum halað inn fleiri stig en var reiknað með. Það vantar ekki mikið uppá að við séum að berjast um Evrópusæti og við vonumst til að blanda okkur í þá baráttu ef við náum góðum úrslitum í næstu leikjum,“ bætti Sigurður við.

Lilleström endaði í 5. sæti á síðasta tímabili en missti marga reynda leikmenn í lok tímabilsins sökum fjárhagserfiðleika, þar á meðal Pálma Rafn Pálmason til KR, og gat einungis fengið leikmenn til liðs við sig á frjálsri sölu. „Okkur var sniðinn þröngur stakkur í að fá leikmenn, við máttum eingöngu fá leikmenn sem voru með lausan samning. Síðan er liðið með launaþak þannig að við höfum þurft að fara mjög sparlega með peningana. Liðið missti marga reynslubolta í fyrra og við höfum fyrst og fremst fengið til okkar leikmenn úr neðri deildum í Noregi eða leikmenn sem eru að spila sitt fyrsta tímabil í Noregi eins og Finnur Orri og Árni Vilhjálms. Okkur hefur samt gengið mjög vel að búa til gott lið.“

Lilleström fékk Finn Orra Margeirsson og Árna Vilhjálmsson frá Breiðabliki til liðs við sig í ársbyrjun. Finnur Orri er strax orðinn lykilmaður í Lilleström og hefur leikið alla leiki liðsins. „Við erum mjög ánægðir með Finn Orra, sem sést á því hve margar mínútur hann hefur spilað. Hann sinnir ákveðnu hlutverki í liðinu, sem er að hefja uppspilið og tengja saman vörn, sókn og kantana. Hann er mjög klókur spilari og hefur bætt sig mjög mikið síðan hann kom út. Hann gegnir kannski dálítið vanmetnu hlutverki í liðinu. Hann er ekki í fyrirsögnum blaðanna því hann skorar ekki mikið af mörkum en hann sinnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir okkur, hefur stimplað sig vel inn og staðið sig vel. Að fá hann var happafengur fyrir okkur,“ sagði Sigurður Ragnar.

Sjá allt viðtalið við Sigurð Ragnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert