Sjálfsmark í lokin kom Japan í úrslit

Japanir fagna sigurmarkinu í lokin, sem Englendingar skoruðu fyrir þær!
Japanir fagna sigurmarkinu í lokin, sem Englendingar skoruðu fyrir þær! AFP

Heimsmeistararnir frá Japan eru komnir í úrslitaleikinn á heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu eftir ósanngjarnan sigur á Englendingum, 2:1, í undanúrslitaleik sem var að ljúka í Edmonton þar sem sjálfsmark í uppbótartíma felldi enska liðið sem var sterkari aðilinn í leiknum.

Það verða því Bandaríkin og Japan sem leika til úrslita í Vancouver á sunnudagskvöldið, rétt eins og í síðustu keppni árið 2011, en Þýskaland og England leika um bronsið í Edmonton á laugardagskvöldið.

Jodie Taylor, framherji Englands, komst í gott færi eftir aðeins hálfa mínútu og skaut rétt framhjá marki Japana. Japan sótti meira en England átti hættulegar sóknir og Toni Duggan átti hörkuskot rétt yfir japanska markið á 23. mínútu.

Japan náði forystunni á 32. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á Englendinga. Claire Rafferty braut á Saori Ariyoshi en spurning var hvort brotið hefði átt sér stað innan eða utan vítateigs. Fyrirliðinn Aya Miyama tók spyrnuna og skoraði af öryggi, eftir óvenjulega takta í aðhlaupinu, 1:0.

Aftur benti Anne-Marie Keighley dómari frá Nýja-Sjálandi á vítapunktinn átta mínútum síðar þegar Yuki Ogimi var talin hafa brotið á Steph Houghton, fyrirliða Englands, inni við vítapunkt. Það var afar strangur dómur, svo ekki sé fastar að orði komist. Fara Williams, samherji Katrínar Ómarsdóttur hjá Liverpool, tók spyrnuna og jafnaði með föstu skoti, næstum án tilhlaups, 1:1.

Enska liðið var sterkara framan af seinni hálfleiknum og heimsmeistararnir áttu í vök að verjast. Á 62. mínútu áttu Duggan fast skot í þverslána og út. Tveimur mínútum síðar átti varamaðurinn Ellen White gott skot sem Ayumi Kaihori markvörður Japan varði vel í horn. Og rétt á eftir átti Jill Scott fastan skalla eftir hornspyrnu en hárfínt framhjá markinu.

Mana Iwabuchi átti  bestu tilraun Japana fram að því í leiknum á 74. mínútu, nýkomin inná sem varamaður, en hún átti fast skot rétt framhjá marki Englands. Claire Rafferty var síðan rétt búin að skora úr fyrirgjöf en boltinn datt ofan á þverslá japanska marksins.

Þegar allt stefndi í framlengingu skoraði enska liðið sjálfsmark, í uppbótartíma leiksins, en Laura Bassett reyndi að stýra boltanum í horn eftir fyrirgjöf, en beint í eigið mark, 2:1, og Japanir voru þar með komnir í úrslitaleikinn.

Fara Williams jafnar fyrir Englendinga úr vítaspyrnunni, 1:1.
Fara Williams jafnar fyrir Englendinga úr vítaspyrnunni, 1:1. AFP
Aya Miyama kemur Japan yfir 1:0 af vítapunktinum.
Aya Miyama kemur Japan yfir 1:0 af vítapunktinum. AFP
Claire Rafferty brýtur á Saori Ariyoshi og fékk á sig …
Claire Rafferty brýtur á Saori Ariyoshi og fékk á sig vítaspyrnu sem Japan skoraði úr, 1:0. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert