„Gat ekki andað eftir sjálfsmarkið“ (myndskeið)

Jo Potter hughreistir Lauru Bassett eftir sjálfsmarkið.
Jo Potter hughreistir Lauru Bassett eftir sjálfsmarkið. AFP

Laura Bassett segir að hún sé gjörsamlega niðurbrotin eftir að sjálfsmark hennar í uppbótartíma varð til þess að England missti af möguleikanum að leika til úrslita um heimsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu.

England  tapaði fyrir Japan 2:1 þar sem slysalegt sjálfsmark Bassett réði úrslitum í lokin. Viðbrögð hennar létu ekki á sér standa þar sem hún var hreinlega óhuggandi.

„Ég gat ekki andað. Hjartað barðist um í brjóstinu á mér og ég óskaði þess heitast að jörðin myndi opnast og gleypa mig með sér,“ sagði Bassett um atvikið örlagaríka. Hún segist enn vera í miklu uppnámi og hafi ekki getað talað við foreldra sína síðan fyrir leikinn.

Þrátt fyrir allt hefur landsliðsþjálfarinn Mark Sampson gefið það út að Bassett muni byrja leikinn um þriðja sætið gegn Þýskalandi annað kvöld, og sjálfur hefur hann lýst henni sem hetju.

„Ég hefði frekar viljað að fyrirliðinn Steph Houghton og Mark verði þekkt sem hetjur fyrir að leiða okkur að heimsmeistaratitlinum. Frekar vil ég að enginn viti nafnið mitt,“ sagði Bassett, en hvernig kom sjálfsmarkið henni fyrir sjónir?

„Ég ætlaði að koma boltanum frá og þegar ég sá hann fara í slána hélt ég að hann hefði ekki farið inn. Svo gaf dómarinn merki og þannig fór það. Eftir leikinn var ég niðurbrotin, eyðilögð og réði ekki við tilfinningarnar. Fyrir fólk sem segir mig vanta að sýna tilfinningarnar er ég venjulega sammála, en þarna réði ég ekki við neitt,“ sagði Bassett.

„Ég vildi komast burt og gráta ein með sjálfri mér. Það er svo erfitt að horfa í augun á liðsfélögunum sem hafa gefið allt sitt fyrir England og við virkilega trúðum því að við kæmumst alla leið,“ sagði Basset, en myndband af markinu örlagaríka má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert