Birkir á leið til Leeds eftir allt saman?

Birkir Bjarnason á ferðinni gegn Hollandi í haust.
Birkir Bjarnason á ferðinni gegn Hollandi í haust. mbl.is/Ómar

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag eru félagaskipti landsliðsmannsins Birkis Bjarnasonar frá Pescara á Ítalíu til Torino í uppnámi, en ítalskir fjölmiðlar greina frá því að ágreiningur sé uppi um launamál leikmannsins.

Torino og Pescara voru þegar búin að koma sér saman um félagaskiptin og talið var einungis formsatriði að skrifa undir samning, en samkvæmt ítölskum miðlum fór umboðsmaður Birkis fram á hærri laun en áður hafði verið talað um.

Breskir miðlar hafa fylgst með þessu máli í dag og eru nú getgátur uppi um að enska B-deildarfélagið Leeds hafi lagt fram tilboð í Birki á síðustu stundu og boðið honum hærri laun en Torino gerði, sem hleypti samningaviðræðunum í uppnám. Birkir hefur verið orðaður við Leeds síðustu vikur, en félagið er í leit að miðjumanni og kantmanni og sjá Íslendinginn sem góða viðbót í sinn hóp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert