Viðar Örn reyndist hetjan í útisigri

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. Ljósmynd/dagbladet.no

Viðar Örn Kjartansson reyndist hetja Jiangsu Sainty þegar liðið lagði Guizhou Renhe á útivelli í kínversku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Choi Yong-soo sem tók við á dögunum eftir að Gao Hongbo var látinn taka pokann sinn. Viðar Örn hefur þurft að sætta sig við bekkjarsetu síðustu vikur en var settur beint í byrjunarliðið af nýja þjálfaranum og þakkaði heldur betur traustið, en hann skoraði eina markið í 1:0 sigri liðsins

Sölvi Geir Ottesen var að vanda í hjarta varnar liðsins og spilaði allan leikinn, en Viðar var tekinn af velli fjórum mínútum fyrir leikslok. Jiangsu Sainty jafnaði Henan Jianye að stigum í fimmta til sjötta sæti deildarinnar með sigrinum og hefur 25 stig eftir sautján leiki.

Shijiazhuang Ever Bright, félagið sem Eiður Smári Guðjohnsen er á leiðinni til, gerði markalaust jafntefli við Changchun Yatai og er fjórum stigum á eftir Jiangsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert