Bandaríkin heimsmeistarar - myndskeið

Bandaríkin tryggðu sér heimsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu í þriðja skipti, og í fyrsta sinn í sextán ár, með því að sigra Japan, 5:2, í úrslitaleiknum sem var að ljúka í Vancouver í Kanada. Öll mörkin voru skoruð á fyrstu 55 mínútum leiksins.

Bandaríkin urðu áður heimsmeistarar árin 1991 og 1999 en fyrir fjórum árum tapaði liðið fyrir Japan í úrslitaleik keppninnar í Þýskalandi. Þess var hefnt með tilþrifum í Vancouver þar sem Carli Lloyd fór á kostum og skoraði þrjú mörk á fyrstu 16 mínútum leiksins.

Upphafsmínúturnar voru einhverjar þær ótrúlegustu sem sést hafa í svona úrslitaleik en eftir aðeins 16 mínútur var staðan orðin 4:0. Carli Lloyd skoraði á 3. og 5. mínútu, Lauren Holiday á 14. mínútu og Lloyd innsiglaði þrennuna á 16. mínútu með mögnuðu skoti frá miðlínu vallarins (sjá myndskeið neðar í fréttinni). Þar með var hún þegar orðin fyrst kvenna til að skora þrennu í úrslitaleik HM kvenna.

Yuki Ogimi kom japanska liðinu á blað á 27. mínútu þegar hún minnkaði muninn í 4:1. Japanski þjálfarinn gerði tvær breytingar á liði sínu áður en fyrri hálfleiknum lauk og freistaði þess að hleypa nýju lífi í leik heimsmeistaranna.

Á 52. mínútu minnkaði Japan muninn í 4:2 þegar Julie Johnston skallaði boltann í eigið mark eftir aukaspyrnu Japana. Spenna hljóp í leikinn en varði ekki lengi því á 54. mínútu skoraði Tobin Heath fimmta mark Bandaríkjanna eftir hornspyrnu, 5:2.

Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir færi á báða bóga og sigur bandaríska liðsins var því aldrei í hættu það sem eftir lifði leiks. Áhorfendur á leiknum í Vancouver voru um 53 þúsund talsins.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

90. Leik lokið - Bandaríkin fagna sínum þriðja heimsmeistaratitli.

86. Hin fertuga Christine Rampone kemur inná sem varamaður hjá Bandaríkjunum fyrir Alex Morgan. Hún er sú eina sem eftir er af bandaríska liðinu sem síðast varð heimsmeistari árið 1999.

85. GULT. Nú er það Iwabuchi sem brýtur af sér og fær gula spjaldið

82. GULT. Homare Sawa, sú reyndasta í liði Japan, fær fyrsta gula spjaldið í þessum úrslitaleik fyrir að brjóta á Abby Wambach.

79. Abby Wambach fær að taka þátt í þessu á lokakaflanum. Hún kemur inná fyrir Tobin Heath.

75. Staðan ennþá 5:2 og titillinn blasir við bandaríska liðinu. Japan hefur sótt talsvert en vantað herslumun til að koma inn þriðja markinu sem myndi opna leikinn á ný.

61. Kelley O'Hara kemur inná fyrir Megan Rapinoe hjá Bandaríkjunum.

59. Iwabuchi kemur inná fyrir Ohno hjá Japan. Skiptingum þeirra lokið.

54. MARK - 5:2. En vonin lifið ekki lengi hjá þeim japönsku. Hornspyrna frá vinstri og eftir atgang í markteignum þrumar Tobin Heath boltanum i netið.

52. MARK - 4:2. Já, ótrúlegt en satt. Það er að koma spenna í leikinn á ný. Aukaspyrna Japana og Julie Johnston skallar boltann í eigið mark!

50. Hörkuskot frá Morgan Brian og Kaihori í marki Japan nær naumlega að blaka boltanum yfir þverslána.

46. Seinni hálfleikur er hafinn.

45. HÁLFLEIKUR í Vancouver og heimsmeistaratitillinn 2015 blasir við bandaríska liðinu sem var komið í 4:0 eftir 16 mínútna leik. Þrenna frá Carli Lloyd. En markið sem Yuki Ogimi skoraði fyrir Japan gefur heimsmeisturunum veika von. Þær þurfa hinsvegar hálfgert kraftaverk í seinni hálfleiknum til að snúa þessu við.

39. Og aftur skipta Japanir. Nahomi Kawasumi fer af velli og Yuika Sugasawa kemur í hennar stað. Önnur taktísk skipting í fyrri hálfleik. 

33. Þjálfari Japana bregst við ósköpunum með skiptingu. Tekur varnarmanninn Azusa Iwashimizu af velli og setur inná reyndasta leikmann sinn, Homare Sawa.

27. MARK - 4:1. Jú, Japan er með. Yuki Ogimi snýr af  sér varnarmann við vítapunkt og þrumar boltanum í bandaríska markið. Lífsmark með meisturunum.

24. Litlu munar að Alex Morgan skori fimmta mark Bandaríkjanna eftir góðan sprett en Kaihori í marki Japan ver vel frá henni.

16. MARK - 4:0. Já, þetta er bara búið. Og Carli Lloyd er komin með þrennuna eftir korter. Fær boltann á miðju, sér að japanski markmaðurinn er framarlega og hún einfaldlega þrumar boltanum yfir hann af 50 metra færi!!!

14. MARK - 3:0. Er þetta bara búið? Lauren Holiday tekur boltann á lofti og skorar með glæsilegu skoti í kjölfarið á mistökum í japönsku vörninni.

8. Þessi byrjun á úrslitaleik HM er lygileg. Er bandaríska liðið búið að gera út um hann strax? Carli Lloyd þurfti þrennu til að ná Céliu Sasic sem markahæst á HM, og hún er þegar komin með tvö mörk. Fimm alls en Sasic skoraði sex.

5. MARK - 2:0. Þetta er ótrúlegt. Aukaspyrna frá hægri kantinum, nú hrekkur boltinn inní markteiginn og þar  er Carli Lloyd aftur mætt og kemur honum í netið!!

3.  MARK - 1:0. Bandaríkin hafa strax náð forystunni! Hornspyrna Megan Rapinoe frá hægri, föst og í átt að vítapunkti, þar sem Carli Lloyd kemur á ferðinni og hamrar boltann í netið.

1. Flautað er til leiks og það eru Japanir sem byrja með boltann.

Bandaríkin sigruðu Þýskaland 2:0 í undanúrslitunum í Kanada og Japan bar sigurorð af Englandi, 2:1.

Byrjunarlið Bandaríkjanna: Hope Solo, Ali Krieger, Becky Sauerbrunn, Julie Johnston, Meghan Klingenberg, Megan Rapinoe, Carli Lloyd, Lauren Holiday, Morgan Brian, Tobin Heath, Alex Morgan

Byrjunarlið Japan: Ayumi Kaihori, Azusa Iwashimizu, Saki Kumagai, Aya Sameshima, Mizuho Sakaguchi, Aya Miyama, Nahomi Kawasumi, Shinobu Ohno, Rumi Utsugi, Yuki Ogimi, Saori Ariyoshi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert