Frakkar og Þjóðverjar horfðu til Katar

Sepp Blatter og Vladimir Pútin á góðri stundu.
Sepp Blatter og Vladimir Pútin á góðri stundu. mbl.is / REUTERS

Sepp Blatter forseti FIFA sagði í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag á dögunum að Frakkar og Þjóðverjar hafi beitt pólitískum þrýstingi til þess að heimsmeistaramót karla í knattspyrnu myndi fara fram í Katar árið 2022. 

Blatter heldur því fram í viðtalinu að þáverandi forsetar Frakka og Þjóðverja þeir Nikola Sarkozy og Christian Wulff hafi beitt pólitískum áhrifum sínum í aðdraganda þess að gestgjafar heimsmeistaramótanna árin 2018 og 2022 voru valdir í byrjun desember árið 2010.

„Sarkozy and Wulff reyndu að hafa áhrif á fulltrúa sinna þjóða og beindu þeim í þá átt að kjósa að heimsmeistaramótið myndi fara fram í Katar árið 2022. Þeir aðilar sem stóðu að baki þeirri ákvörðun að mótið skyldi fara fram í Katar árið 2022 bera ábyrgð á því og enginn annar.

„Ég er orðinn þreyttur á því að axla ábyrgð á annarra manna gjörðum sem ég hef hvorki heimild né vald til þess að framkvæma. Ég bregst einungis við og starfa á grundvelli þeirra ákvarðana sem meirihluti framkvæmdanefndarinnar ákveður. Ef að framkvæmdanefndin vill halda heimsmeistaramótið í Katar þá verð ég bara að samþykkja það og fylgja og starfa samkvæmt þeirri ákvörðun.“ 

Blatter ýjar að því í viðtalinu að þýska knattspyrnusambandið hafi fengið tilmæli frá Wulff um að kjósa Katar vegna þeirra efnahagslegu hagsmuna sem Þjóðverjar hafa að gæta í Katar.

„Líttu á hversu mörg þýsk fyrirtæki eru með starfsemi í Katar. Deutsche Bahn, Hochtief og fjölmörg önnur þýsk fyrirtæki eru með verkefni í gangi í Katar og það áður en ákveðið var að heimsmeistaramótið myndi vera haldið í Katar árið 2022.“ 

Blatter segist þessa dagana vera að vinda ofan af áratuga langri og víðtækri spillingu sem á rót sína að rekja í Bandaríkjunum og spannar yfir 24 ár og þær upphæðir sem talið er að hafi genið milli manna í mútugreiðslum á þessum tíma eru rúmir 150 milljón dollarar.

"Ég er að berjast fyrir því að uppræta téða spillingu. Ekki mín vegna heldur með hagsmuni FIFA að leiðarljósi. Ég óttast ekki að rannsókn bandarískra lögregluyfirvaldi muni leiða neitt misjafnt í ljós um verk mín fyrir hönd. Ég hef ekkert að fela. Ég óttast hins vegar að þeir vilji eyðileggja það sem FIFA stendur fyrir og arfleifð mína hjá FIFA.“ 

Bandarískum lögregluyfirvöldum er ekki heimilt að framselja Blatter frá Sviss til Bandaríkjanna án hans samþykkis. Blatter gæti hins vegar átt það á hættu að vera handtekinn í fjölmörgum löndum ferðist hann á annað borð á erlenda grundu. Blatter verður ekki viðstaddur úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu kvenna eins og hann hefur vanalega gert af ótta við að vera hnepptur í varðhald þar í landi. 

„Þar til þessi mál hafa verið til lykta leidd mun ég ekki tefla á tvær hættur með því að ferðast til landa þar sem ég gæti verið hnepptur í gæsluvarðhald.“ sagði Sepp Blatter í viðtali við Welt am Sonntag.

Blatter mun engu að síður halda til Rússlands í lok júlí þegar dregið verður í riðla í undankeppni heimsmeistaramótsins árið 2018 sem haldið verður þar í landi. Blatter nýtur stuðnings Vladimir Pútin, forseta Rússlands, sem legið hefur undir ásökunum af hendi bandarískra fjölmiðla undanfarið fyrir að beita áhrifum sínum á óeðlilegan hátt í málefnum er varða knattspyrnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert