Gerrard kynntur hjá Galaxy

Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool og enska landsliðsins í knattspyrnu, var formlega kynntur til sögunnar fyrir stuðningsmenn Los Angeles Galaxy í hálfleik á leik liðsins gegn Toronto FC í MLS-deildinni í nótt.

Gerrard sá þar hina nýju samherja sína sigra 4:0 og Robbie Keane skoraði þrennu í leiknum.

„Ég get ekki beðið eftir því að komast í skóna og spila fyrir ykkur. Ég hef alltaf spilað með Liverpool en þetta er góður staður fyrir mig til að koma, njóta þess að spila fótbolta og vonandi að bæta verðlaunagripum í safnið," sagði Gerrard í ávarpi til áhorfenda.

Chris Klein, forseti LA Galaxy, sagði við Sky Sports að koma Gerrards til félagsins væri gífurlega sterkt, bæði fyrir liðið og deildina, og kvaðst reikna með honum í leiðtogahlutverki frá fyrsta degi.

„Það er gífurlega stórt mál fyrir MLS-deildina og fyrir Galaxy að fá leikmann á borð við Steven Gerrard í sínar raðir. Við vorum vissir um það fyrir nokkru síðan að ef hann myndi á annað borð yfirgefa Liverpool værum við góður kostur fyrir hann," sagði Klein.

„Við gerum ráð fyrir því að hann sé kominn hingað til að sigra. Við vonumst eftir því að hann verði í forystuhlutverki á sama hátt og hann gerði allan sinn feril með Liverpool. Geri hann það, verðum við í góðum málum," sagði forsetinn.

Steven Gerrard ávarpar áhorfendur í hálfleik.
Steven Gerrard ávarpar áhorfendur í hálfleik. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert