Ég hélt að ég væri í himnaríki

Abby Wambach, leikmaður bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var eðlilega í skýjunum eftir að hafa unnið HM í Kanada í gær, en liðið sigraði Japan, 5:2, í mögnuðum leik.

Bandaríska liðið var stórkostlegt í úrslitaleiknum gegn Japan í gær, en liðið komst fjórum mörkum yfir á fyrstu tuttugu mínútunum þar sem Carli Lloyd gerði þrennu og Lauren Holiday skoraði eitt mark.

Japan náði sér aldrei almennilega á strik og sigur bandaríska liðsins því verðskuldaður. Abby kom inn á sem varamaður, en hún er ein besta knattspyrnukona sem Bandaríkin hafa alið af sér.

„Ég get eiginlega ekki lýst því hvernig mér líður. Ég er stolt af því að vera partur af þessu liði, því að mínu mati var þetta mót svolítið sérstakt fyrir okkur,“ sagði Wambach.

„Það er ekki auðvelt að láta ekki leikmann sem er einn mesti markaskorari heimsins byrja, en Jill Ellis, þjálfari liðsins, og aðstoðarmenn hennar, ásamt mér, höfðu trú á þeim leikmönnum sem byrjuðu á undan mér.“

„Mér fannst eins og ég hefði dáið yfir þessum leik og að svona liti himnaríki út, því það er ekki hægt að lýsa því í orðum hvað var að gerast þarna,“ sagði hún að lokum.

Abby Wambach fagnar með bandaríska landsliðinu.
Abby Wambach fagnar með bandaríska landsliðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert