Hef helgað líf mitt fótboltanum

Carli Lloyd og Jill Ellis þjálfari Bandaríkjanna fagna heimsmeistaratitlinum í …
Carli Lloyd og Jill Ellis þjálfari Bandaríkjanna fagna heimsmeistaratitlinum í leikslok í Vancouver í nótt. AFP

Carli Lloyd, besti leikmaður heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu kvenna sem skoraði þrennu á fyrstu 16 mínútum úrslitaleiksins gegn Japan í Vancouver og lagði með því grunninn að sigri Bandaríkjanna á Japan, 5:2, kvaðst eiga erfitt með að átta sig á því sem hefði gerst þegar hún ræddi við fjölmiðla eftir leikinn.

„Ferillinn minn er búinn að vera langt ferðalag. Stór hópur fólks hefur trúð á mig og staðið með mér frá fyrsta degi. Ég hef helgað líf mitt fótboltanum, allt annað hefur þurft að víkja. En ég hefði ekki viljað gera það á nokkurn annan hátt," sagði Lloyd við ESPN, og vék síðan sérstaklega að þætti Jill Ellis þjálfara bandaríska liðsins.

„Ég vil þakka Jill fyrir hennar framlag. Ég veit að margir höfðu áhuggjur af okkar frammistöðu en við stóðum þétt saman, héldum allar okkar striki og fórum algjörlega eftir leikplaninu," sagði Lloyd sem áður hefur skilað sínu í stórum leikjum því hún skoraði sigurmörk Bandaríkjanna í úrslitaleikjum á Ólympíuleikunum, bæði 2008 og 2012.

„Ég er eiginlega orðlaus. Alveg satt. Ég er svo stolt af þessu liði. Þetta er allt hálf óraunverulegt, ég er ekki búinað melta þetta ennþá. Ég er svo ótrúlega stolt af hverri einustu persónu í þessu liði. Við vorum að skrifa söguna upp á nýtt," sagði Carli Lloyd.

Enginn leikmaður hefur skoraði þrennu á jafn skömmum tíma í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna eða karla frá upphafi. Lloyd er fyrsta konan sem skorar þrennu í úrslitaleik HM og hjá körlum hafði aðeins Geoff Hurst afrekað það þegar England sigraði Vestur-Þýskaland 4:2 í úrslitaleiknum 1966.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert