Entist í 237 mínútur í Finnlandi

Freddy Adu með búning KuPs.
Freddy Adu með búning KuPs. Ljósmynd/kups.fi

Bandaríski framherjinn Freddy Adu, sem eitt sinn var hampað sem einhverjum efnilegasta knattspyrnumanni heims, er farinn frá finnska félaginu KuPs Kuopio, eftir aðeins fimm leiki og 237 mínútur í úrvalsdeildinni þar í landi.

Adu, sem er 26 ára gamall og fæddur í Gana, var aðeins fimmtán ára þegar hann fór að spila með DC United í MLS-deildinni. Þar er hann yngsti leikmaður sem hefur spilað og skorað, og hann hafði spilað 59 deildaleiki og skorað 11 mörk þegar hann var 17 ára. En eftir það hefur hann átt erfitt uppdráttar. Adu fór til Benfica og Belenenses í Portúgal, Mónakó í Frakklandi, Aris í Grikklandi og Rizespor í Tyrklandi á árunum 2007 til 2011. 

Þá kom hann aftur til Bandaríkjanna og skoraði 7 mörk í 37 leikjum fyrir Philadelphia Union á  tveimur árum. En eftir það hefur hann spilað með Bahia í Brasilíu, Jagodina í Serbíu og svo KuPs. Adu hefur ekki spilað með bandaríska landsliðinu síðan 2011 en hafði þá leikið 17 leiki með því og  skorað 2 mörk. Hann var hinsvegar í 23-ára landsliði Bandaríkjanna sem lék á Ólympíuleikunum í London 2012 og náði þá að skora eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert