Fékk trefil frá Haukum fyrir afgerandi árangur í Football Manager

Simone með Haukatrefilinn.
Simone með Haukatrefilinn. Twitter

Það er ekki á hverjum degi sem knattspyrnuliði Hauka tekst að vinna Meistaradeild Evrópu, en ítalska námsmanninum, Simone Gallucci, tókst þó að gera það og það átta sinnum. Það er að sjálfsögðu ekki í takt við raunveruleikann enda náði hann þessum árangri í hinum geysivinsæla tölvuleik, Football Manager.

Tölvuleikurinn þykir afar vinsæll um allan heim og þá sérstaklega hér á landi, en það má lýsa honum sem lífstíl frekar en áhugamáli. Þeir sem spila leikinn lifa sig inn í hann og upplifa sig sem alvöru þjálfara á köflum og því um grafalvarlegt mál að ræða.

Áhugaverð mynd birtist á samskiptavef Twitter í gær, en þar birti notandi að nafni Simone Gallucci mynd af árangri sínum með 1. deildarlið Hauka. Hann var að spila 2007 útgáfuna af leiknum, en þar hafði hann unnið allt sem hægt er að vinna með liðinu.

Hann vann Meistaradeild Evrópu átta sinnum og Evrópudeildina tvívegis, en hann fór í gegnum 20 tímabil með liðið. Hann sendi Haukum bréf og mynd af árangrinum og var verðlaunaður í kjölfarið, en hann fékk trefil að gjöf frá félaginu.

„Ég ákvað að taka við Haukum í Football Manager 2007 af þeirri ástæðu að liðið var í fyrstu deildinni og var eitt slakasta liðið í Evrópu. Ég hafði þjálfað Dundee United í Skotlandi og gert þá að Evrópumeisturum, en mig langaði í ómögulega áskorun,“ sagði Gallucci í samtali við mbl.is í dag.

„Ástæða þess að ég spila 2007 útgáfuna er af því að hún er einföld en samt vönduð og að mínu mati besta útgáfan af leiknum.“

Formaður Hauka gaf honum trefil

„Þegar ég var búinn að stýra Haukum í tíu ár og búinn að landa sigri í Meistaradeild Evrópu þá ákvað ég að ég yrði nú að kaupa trefil. Ég hafði samband við Hauka og sendi þeim mynd af árangrinum og svaraði Jón Erlendsson, formaður klúbbsins, mér um hæl.“

„Hann ákvað að gefa mér trefil fyrir árangurinn. Ég hafði samband við Hauka í desember og trefillinn var kominn í janúar. Ég vil þakka Jóni Erlendssyni kærlega fyrir mig,“ sagði Gallucci að lokum.

Árangur Simone með Hauka í Football Manager 2007.
Árangur Simone með Hauka í Football Manager 2007. Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert