„Platini er engu betri en Blatter“

Prince Ali, Sepp Blatter og Michel Platini.
Prince Ali, Sepp Blatter og Michel Platini. AFP

„Það myndi ekki vita á gott fyrir FIFA ef Michel Platini myndi taka við af Sepp Blatter,“ sagði jórdanski prinsinn Ali Bin Al Hussein, sem bauð sig fram gegn Sepp Blatter, forseta FIFA, í síðustu forsetakosningum, en hann gaf frá sér yfirlýsingu í dag.

Ali bauð sig fram gegn Sepp Blatter í maí í forsetakosningum FIFA, en hann tapaði þrátt fyrir að búið var að uppljósta spillingu innan alþjóðasambandsins.

Blatter ákvað þó að stíga niður stuttu síðar, en fjórtán aðilar innan FIFA voru kærðir, grunaðir um spillingu.

Michel Platini, forseti UEFA, hefur staðfest að hann ætli sér að bjóða sig fram sem forseta FIFA, en Ali líst ekkert á það og segir að það komi ekkert til með að breytast innan sambandsins verði hann kjörinn forseti.

„Stuðningsmenn knattspyrnunnar og leikmennirnir sjálfir eiga betra skilið. Hlutirnir verða að breytast og það verður að gera eitthvað í þessu.“

„Við verðum að hlusta á knattspyrnusamböndin um allan heim. Ég mun funda með þeim á næstu vikum og ræða hvernig er hægt að breyta til hins betra,“ sagði Ali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert