„Mín stærstu mistök að leyfa Pirlo að fara“

Andrea Pirlo er engum líkur á vellinum.
Andrea Pirlo er engum líkur á vellinum. AFP

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan á Ítalíu, segir það sín stærstu mistök að hafa ekki framlengt samning Andrea Pirlo við félagið.

Pirlo, sem er 36 ára gamall í dag, gekk til liðs við AC Milan árið 2001 frá nágrönnum þeirra í Inter, en hjá Milan vann hann Meistaradeild Evrópu þrisvar auk þess sem hann vann ítölsku deildina tvisvar með liðinu.

Hann spilaði aðeins 25 leiki í heildina tímabilið 2010-2011, en undir lok tímabilsins komst hann og félagið að sameiginlegri niðurstöðu um að hann myndi ekki endurnýja samning sinn og fór hann því á frjálsri sölu til Juventus.

Allegri var á þeim buxunum að Pirlo myndi ekki fá að spila mikið og að hann ætti ekki lengur heima í öflugi liði eins og Milan.

Það var rangt hjá ítalska þjálfaranum, en er Pirlo mætti til Juventus þá umbreyttist leikur hans undir stjórn Antonio Conte og tókst honum að vinna þar fjóra deildartitla áður en hann samdi við New York City í MLS-deildinni i sumar.

„Mín stærstu mistök voru að leyfa Pirlo að fara. Þetta voru mistök sem ég gerði ásamt nokkrum öðrum, en ekki spyrja mig hverjir hinir voru,“ sagði Adriano Galliani, varaforseti Milan, við La Gazzetta dello Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert