De Jong ætlaði að hjóla í Guardiola

Nigel de Jong er þekktur fyrir mikið skap.
Nigel de Jong er þekktur fyrir mikið skap. AFP

Það ætlaði allt að sjóða upp úr í leik Bayern München og AC Milan þegar Bæjarar höfðu betur, 3:0, og tryggðu sér sæti í úrslitum Audi-bikarsins sem er æfingamót í Þýskalandi.

Hollenski miðjumaðurinn Nigel De Jong hjá AC braut illa á Joshua Kimmich eftir einungis tíu mínútna leik í fyrri hálfleik og þurfti hinn tvítugi Kimmich að fara af velli eftir tæklinguna.

Pep Guardiola, þjálfari Bayern, var mjög ósáttur við framgöngu De Jong og lét hann heyra það á leið til búningsherbergja í hálfleik. Það fór illa í þann hollenska og samkvæmt fréttum þurftu samherjar að halda honum frá því að slá til Guardiola.

De Jong er duglegur að koma sér í fréttir vegna harðrar spilamennsku sinnar, en hann tók meðal annars frægt kung fu spark í bringuna á Xabi Alonso í úrslitum heimsmeistaramótsins árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert