Mun sakna fótboltans

Sasic tekur við styttunni sem nafnbótinni fylgir, úr hendi Michels …
Sasic tekur við styttunni sem nafnbótinni fylgir, úr hendi Michels Platini forseta UEFA í Mónakó í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

"Það voru fyrst og fremst samherjar mínir sem eiga heiðurinn af því að ég skuli fá þennan titil," sagði Célia Sasic við fréttamenn í Mónakó eftir að Knattspyrnusamband Evrópu og Samtök evrópskra fjölmiðla útnefndu hana knattspyrnukonu Evrópu 2014-15 í Mónakó í dag.

"Tímabilið okkar í Frankfurt var magnað og við sýndum gífurlega mikla liðsheild og baráttuvilja í Meistaradeildinni. Ég er geysilega stolt af því hvernig okkur tókst að sigra þar, við gáfumst aldrei upp þó við þyrftum að takast á við fullt af erfiðum hindrunum," sagði Sasic en Frankfurt vann París SG, 2:1, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor.

Í sumar varð Sasic síðan markadrottning heimsmeistaramótsins í Kanada þegar hún skoraði 6 mörk fyrir Þýskaland. Um miðjan júlí tilkynnti þessi 27 ára gamli framherji að hún ætlaði að draga sig í hlé frá fótboltanum.

Hún var að vonum spurð mikið út í þá óvæntu ákvörðun sína að leggja skóna á hilluna. "Ég á ellefu ótrúleg ár að baki og hef upplifað miklar breytingar. Ég þurfti að æfa með strákum þegar ég var í yngri flokkunum en nú sjáum við fjölmargar ungar og góðar fótboltastúlkur koma fram. Ekki síst á HM í Kanada þar sem fjöldi efnilegra leikmanna sýndi hve björt framtíðin er. Þegar ég var að byrja að spila í meistaraflokki var æft 3-4 sinnum í viku, við vorum með einn þjálfara og einn stjórnarmann, og það var allt og sumt. Þetta hefur gjörbreyst á undanförnum árum.

Ég mun að sjálfsögðu sakna fótboltans, hann hefur verið mín ástríða í lífinu, en ég tek með mér allar góðu minningarnar," sagði Sasic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert