Aron Einar: Spila þetta á reynslunni

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var með á æfingunni í dag og mér leið vel og ætti að geta verið með í leiknum gegn Hollendingunum nema að eitthvað bakslag komi í þetta hjá mér,“ sagði Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins við mbl.is í dag.

Aron hefur verið að glíma við meiðsli og hefur ekki náð að spila deildarleik með Cardiff á tímabilinu.

„Það er vonandi að maður nái að haldast heill fyrir leikinn. Ég neita því ekki að það vantar upp á leikformið hjá mér en maður verður bara að spila þetta á reynslunni. Það er mín von að við náum að halda áfram að bæta okkur sem lið. Við vitum að okkur bíður gríðarlega erfiður leikur en ég held að Hollendingarnir verði opnir.

Þeir koma í leikinn með það fyrir augum að sækja sigur en ég held að við höldum okkar sama leik og við spiluðum gegn þeim heima. Það verður nú væntanlega aðeins meiri pressa á okkur en við komum til með að nýta hraðann á okkar sóknarmönnum og sækja hratt á Hollendingana þegar færi gefst,“ sagði Aron Einar.

Aron segir að eitt stig gegn Hollendingum á útivelli yrði góð úrslit.

„Ef okkur tekst að ná fjórum stigum á móti Hollendingum í tveimur leikjum þá verður það frábært enda Hollendingar ein sterkasta knattspyrnuþjóð í heimi. En auðvitað mætum við til leiks með því hugarfari að vinna og við ætlum okkur að sjálfsögðu þrjú stig. Það verður erfitt en vonandi verður þetta bara skemmtilegur leikur. Við komum til með að fá gríðarlega góðan stuðning og það mun hjálpa okkur mikið,“ sagði Aron Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert