Franskur sigur í Lissabon

Mathieu Valbuena fagnar sigurmarkinu í Lissabon í kvöld.
Mathieu Valbuena fagnar sigurmarkinu í Lissabon í kvöld. AFP

Frakkar sigruðu Portúgali, 1:0, þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik karla í knattspyrnu í Lissabon í kvöld.

Mathieu Valbuena, leikmaður Lyon, skoraði sigurmarkið á 85. mínútu leiksins en hann kom inná sem varamaður fimm mínútum áður.

Anthony Martial, dýrasti táningur heims sem Manchester United keypti af Mónakó á dögunum, lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Frakka en hann kom inná sem varamaður fyrir Karim Benzema á 74. mínútu.

Cristiano Ronaldo lék fyrstu 67 mínúturnar með Portúgölum sem búa sig undir mikilvægan útileik gegn Albaníu í undankeppni EM sem fer fram í Tirana á mánudagskvöldið. Það er einn af úrslitaleikjum I-riðils undankeppninnar þar sem Portúgalir, Danir og Albanir bítast um þrjú efstu sætin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert