Skotar lágu í Tbilisi

Skotinn, Steven Naismith t.h. og Solomon Kverkvelia kljást um boltann …
Skotinn, Steven Naismith t.h. og Solomon Kverkvelia kljást um boltann í Tbilisi í dag. AFP

Skoska landsliðið í knattspyrnu mátti sætta sig við tap, 1:0, fyrir landsliði Georgíu í D-riðli undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu karla í dag en leikið var í Tbilisi.

Þar með eiga Skotar á hættu að sjá á eftir þriðja sæti riðilsins síðar í kvöld þegar Írar mæta Gíbraltar en vinni Írar leikinn, eins líklegast er, þá fara þeir stigi upp fyrir Skota og hirða þriðja sætið, a.m.k. í bili. 

Valeri Kazaishvili skoraði eina mark leiksins á 38. mínútu. 

Pólland og Þýskaland eru í tveimur efstu sætum D-riðils en þjóðirnar leiða saman hesta sína í Þýskalandi í kvöld.  Pólland er með 14 stig, Þýskaland 13, Skotland 11, Írland 9, Georgía 6 en Gíbraltar er án stiga.

Skotar fá Þjóðverja í heimsókn á mánudaginn á sama tíma og Írar fá Georgíumenn í heimsókn. Þá leika einnig Pólland og Gíbraltar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert