Müller með Alzheimer

Gerd Müller fagnar marki.
Gerd Müller fagnar marki. AFP

Þýska goðsögnin Gerd Müller hefur verið fluttur á hjúkrunarheimili en komið hefur í ljós að hann þjáist af Alzheimer sjúkdómnum.

Bayern München greinir frá þessu í dag en Müller er ein af goðsögnum félagsins sem og þýska landsliðsins.

Müller, sem fékk viðurnefnið „Der Bomber“ og verður 70 ára gamall í næsta mánuði, var markaskorari af guðs náð. Hann skoraði 68 mörk í 62 leikjum með v-þýska landsliðinu og skoraði meira en 650 mörk með þeim liðum sem hann spilaði með á ferlinum en lengst af honum lék hann með liði Bayern München.

Müller varð markakóngur á HM 1970 þegar hann skoraði 10 mörk og hann skoraði sigurmarkið þegar Þjóðverjar lögðu Hollendinga í úrslitaleik á HM árið 1974 í München. Hann er í þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn í úrslitakeppni HM með 14 mörk. Brasilíumaðurinn Ronaldo skoraði 15 en sá markahæsti er Þjóðverjinn Miroslav Klose með 16 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert